top of page

Samtök sunnlenskra sveitarfélaga hélt sex íbúafundi vorið 2019 í tengslum við gerð nýrrar sóknaráætlunar fyrir Suðurland. Þar kom skýrt fram að heilsan er ofarlega í huga íbúa og þá sérstaklega geðheilbrigði og andleg heilsa. Í nýrri sóknaráætlun Suðurlands fyrir árin 2020-2024 er eitt settra markmiða að auka hamingju Sunnlendinga um 5% fyrir árið 2025.

Hamingjulestin er verkefni með eitt markmið: Að auka hamingju sunnlendinga. Við erum öll ólík og því er rík áhersla á að ná til sem flestra með ólíkum áherslum og verkefnum, allt eftir því hvað hentar hverjum hóp.

Hamingjulestin er gátt fyrir fræðslu og verkefni sem stuðla að bættu geðheilbrigði og aukinni vitund um málaflokkinn. Einnig viljum við stuðla að aukinni virkni og hreyfingu allra Sunnlendinga sem liður í aukinni hamingju, vellíðan og líkamlegt hreysti. Nokkur sunnlensk sveitarfélög hafa hafist handa við verkefnið Heilsueflandi sveitarfélag og vinnur Hamingjulestin vel með því verkefni. Önnur sveitarfélög eru ekki síður að huga að þessum málaflokki og ættu þau að geta nýtt Hamingjulestina í þeirri viðleitni.

Vefur hamingjulestarinnar er fyrsti liður verkefnisins ásamt því að útnefna svokallaða Hamingjuráðherra í hverju sveitarfélagi. Þegar verkefnið er komið vel á veg verður efnt til viðburða og námskeiða í samstarfi við sunnlensk sveitarfélög, með málefni hamingju að yfirskrift. Hamingjuráðherrar eru tengiliðir Hamingjulestarinnar við verkefnið. Þeirra hlutverk er meðal annars að miðla gleðifréttum af sínu svæði, hvetja til þátttöku í viðburðum og námskeiðum á vegum verkefnisins.

Samtök sunnlenskra sveitarfélaga standa að Hamingjulestinni og lestarstjórar eru Guðlaug Ósk Svansdóttir, Ingunn Jónsdóttir og Vala Hauksdóttir. Við hlökkum til að dreifa gleðifréttum, fróðleik og gamanefni um Suðurlandið og stuðla að aukinni vellíðan okkar allra.

bottom of page