top of page

Árný Jóna Sigurðardóttir


Árný Jóna Sigurðardóttir er Hvolsvellingur og býr þar með eiginmanninum Sveinbirni Má og börnunum þeirra 3, Emelíu Sif 15 ára, Sigurði Kára 12 ára og Oddnýju Sif 10 ára. Hún er leikskólakennari að mennt og vinnur sem deildarstjóri í leikskólanum Örk á Hvolsvelli. Helstu áhugmál hennar eru hverskyns handavinna, er mest að prjóna þessa dagana, útivera og ferðalög bæði innanlands og utanlands.

Hvað var það fyrsta sem fékk þig til að brosa í dag?

Fyrsta brosið á morgnana er þegar börnin koma á fætur. Þar sem ég er þessa stundina í veikindaleyfi eftir aðgerð þá fer ég alltaf í göngutúr þegar börnin eru farin í skólann og ég brosti mikið yfir öllum jólaljósunum sem íbúar hér á Hvolsvelli eru búin að setja á húsin sín. Þetta gleður svo mikið á þessum skrítnu tímum.

Hvenær gerðir þú síðast góðverk?

Það var þegar ég var í minni daglegu morgungöngu í lok október þá hitti ég einn 9 ára gamlan fyrrum nemanda minn af leikskólanum sem var í vandræðum með hjólið sitt þar sem keðjan var dottin af og hann að verða of seinn í skólann. Í sameinignu settum við keðjuna á sinn stað og hann hjólaði afskaplega glaður í skólann.

Nefndu þrennt sem gerir þitt daglega líf betra.

Fjölskyldan, prjónar og göngutúrar.

Hvar líður þér best?

Í útlegu með góðum vinum, með skemmtilega saumaklúbbnum mínum, í jeppaferðum inn til fjalla, ég er líka roslega heppin að vera í skemmtilegri vinnu og svo er ég líka voða heimakær og finnst gott að vera heima með fjölskyldunni og prjóna.

Hvað fær þig alltaf til að hlæja?

Þegar við fjölskyldan erum saman er mikið hlegið svo eru vinnufélagarnir með góðan húmor og þar er oft ansi glatt á hjalla.


Flettu myndunum sem þú tókst á símann þinn síðustu daga. Deildu með okkur myndinni sem gleður þig mest. Þessi mynd er tekin í september sl. þá fórum við hluti af móðurfjölskyldunni saman í göngu. Við gengum slóða sem heitir „Út með Bresti“ og er frá bænum Skál á Síðu að Hunkubökkum. Þessa slóð gengu mamma og systkini hennar 2x í viku til að fara í skólann þegar þau voru á aldrinum 10-14 ára. Þetta eru um 10 kílómetrar. Hér fengum við að heyra sögu frá mömmu og bróður hennar um lífið í gamla daga um það hvernig uppvaxtarárin þeirra voru. Göngufélagarnir á þessari mynd er á aldrinum 12 mánaða til 78 ára. Það var ansi mikið hlegið í þessari göngu.
Recent Posts

See All
bottom of page