top of page

Að gleðjast yfir hversdeginum

Hamingjusami Sunnlendingurinn Valgeir F. Backman býr yfir smitandi gleði og það er eins og sólin skýni í gegn um pistilinn sem hann sendi okkur á Hamingjulestinni. Við þökkum honum fyrir að gefa okkur innsýn í starf hans og daglegt líf og fáum að deila pistlinum með lesendum.


Morgunfundur

Ég tel að margir hefðu gott að því að vera í a.m.k. viku á Sólheimum, upplifa hreina yndislega mannelsku, náungakærleik byggðan á mannrækt og jafningjagrundvelli. Alla virka daga kl. 09:00 hringja kirkjuklukkur Sólheimakirkju og morgunfundur íbúa og starfsmanna hefst úti á túni eða inni í Íþróttaleikhúsi, fer eftir veðri. Fundurinn er hefð sem verið hefur í 90 ár, hann er til að upplýsa hvað er að gerast, á einhver afmæli! Hann er til að þakka fyrir góða hluti, til að hlæja og til að gráta! Aðallega til að upplýsa hvað er að gerast í dag eða um helgina, hvað er í hádegismatinn og ferðir. Morgunfundurinn var lagður af í byrjun faraldursins og við hlökkum mikið til að hann verði aftur, enda stór fasti í okkar lífi.


Rótað í moldinni

Talandi um rækt! Þá var ég sendur til Englands á námskeið í vistræktun, permacultur 2012 hjá Patrick Whitefield heitnum sem var einn af þessu alvöru leiðtogum sem minnti svo oft á að mannkynið verður að aðlagast náttúruöflunum, móðir jörð getur vel lifað og blómstrað sem aldrei fyrr án okkar. Þegar heim kom og samkvæmt kenningum og aðferðum fór ég að róta í moldini og Tröllagarður varð til. Garðurinn er gerður af íbúum Sólheima fyrir íbúa Sólheima .

Það er fátt eins dásamlegt og að skjótast niður í Tröllagarð og sækja krydd og salat fyrir kvöldvatinn ferskt og nýskorið. Nammi namm!


Viðhaldið

Grái fiðringurinn fékk aldeilis útrás í febrúar þegar konan mín samþykkti að ég fengi mér viðhald og hún nefndi hana Yamma, öðru nafni Yamaha T7. Var búinn að vera að velta þessu fyrir mér í fimm ár og lét verða af þessu eftir upprifjunarnámskeið stórra hjóla hjá honum Guðna Sveins á Selfossi síðasta sumar og ótrúlega ferðadaga um Grand Canary, upp og niður fram og aftur og hringin í kringum eyjuna fögru núna um jólin og áramótin 19/20. Nú er ég að læra á gripinn og geri það af festu og ábyrgð, ég ætla að njóta ekki þjóta.


Sólheimar 90 ára

5. júlí 2020 eru 90 ár frá því að Sesselja Hreindís Sigmundsdóttir stofnaði Sólheima.

Sesselja var einstök! hugsaðu þér, þetta var á afmælisdegi hennar, hún 28. ára gömul.

Við spyrjum oft þegar velja þarf á milli ákvarðana! HVAÐ HEFÐI SESSA GERT!


Þetta eru fordæmalausir tímar en það er bjart framundan! Sólin skín á Sólheima.

Recent Posts

See All
bottom of page