Að velja hugsanir sínar

Hugrún Vignisdóttir starfar sem sálfræðingur hjá Skólaþjónustu Árnesinga en hefur auk þess marga aðra hatta líkt og algengt er. Hún er móðir og eiginkona, auk þess að vera matgæðingur og jóga unnandi svo fátt sé nefnt.
Árið 2017 skrifaði hún eftirfarandi pistil um mátt hugsana og hugarfars, og á hann jafn vel við í dag og þá.
Í gær var ég í jóga eins og alla aðra mánudaga. Ég lá í slökun þegar Ragnheiður jógakennari spilar fyrir okkur lag. Fallegt lag. Um leið bað hún okkur um að velta fyrir okkur hver við værum. Það er merkilegt hvert hugurinn leiðir okkur á örskotsstundu með ósjálfráðum hugsunum. Hugsunum sem við stjórnum ekki en veljum hvort við dveljum við eða látum fara. Við höfum alltaf val. Við veljum ekki alltaf hvaða hugsanir koma til okkar því það er ógrynni af ósjálfráðum hugsunum sem koma upp í huga okkar á hverjum degi. Við gætum ekki einu sinni valið að dvelja við þær allar því þær eru svo margar. Stundum veljum við að dvelja við eitthvað sem skiptir máli og stundum eitthvað sem skiptir minna máli. Ákvörðunin er engu að síðar okkar. Umhverfið okkar litast oft af þeim hugsunum sem við veljum að dvelja við. Þegar ég vel að dvelja við neikvæðar hugsanir sem koma upp í huga mér tek ég frekar eftir öllu því neikvæða í umhverfinu mínu, því sem betur mætti færa, læt hluti fara í taugarnar á mér og finn að hinu og þessu hvort sem það varðar sjálfa mig, aðra eða annað, bregst frekar við í vörn og tek baráttur sem gætu mögulega verið óþarfar á góðum degi. Stundum eigum við slæman dag. Dagurinn er hins vegar sjaldan slæmur í sjálfu sér. Það geta átt sér stað atburðir sem við ráðum ekki við og eru vissulega slæmir. Stundum er það líka hugarfar okkar sem litar daginn og gerir hann slæman á einhvern hátt.
Sem betur fer eigum við oft fleiri góða daga en slæma. Þegar við dveljum við jákvæðar hugsanir eigum við auðveldara með að láta ofangreinda hluti fram hjá okkur fara, erum betur í stakk búin að hugsa jákvætt um sjálf okkur og aðra og sjá kosti í því sem áður virtist ómögulegt eða óyfirstíganlegt.
Ég fór yfir nokkrar hugsanir í gær meðan ég lá í slæðunni*. Lagið var kannski 3 mínútur en á meðan ég lá fann ég lykt af íþróttafötunum mínum. Lykt af þvottaefninu (í bland við svitalykt auðvitað) sem notað var á hótelinu í Búlgaríu. Það leiddi hugann minn að því hvað fríið var dásamlegt. En sú hugsun vék fyrir frekari og neikvæðari hugsunum… kannski var ég of „tens“, ekki nógu mikill þátttakandi, kannski hefði ég getað verið duglegri að hreyfa mig meðan ég var úti og mögulega hefði ég líka getað borðað minna súkkulaði og ís, verið duglegri eftir að ég kom heim og nú þyrfti ég að fara að taka mig almennilega í gegn. Lagið kláraðist og hugsanirnar hurfu. Ragnheiður bað okkur að hugsa 5 ár aftur í tímann. Hvar vorum við árið 2013. Hver var í kringum okkur, hvað vorum við að gera, hvað leiddi okkur á þann stað sem við erum núna. Að því loknu spilaði hún aftur lagið sem hún hafði spilaði áður. Ég heyrði lagið betur og textann, tók betur eftir. Ég tók líka eftir þeim hugsunum sem leiddu í gegnum huga minn. 2013 var nefnilega gott ár á svo marga vegu, skemmtilegt og fallegt en líka skrítið, óþægilegt og erfitt. Það byrjaði illa korter í áramót ef svo má segja þegar litlir eineggja tvíburar sem höfðu búið um sig í leginu mínu ákváðu að þeim væri ætlað hlutverk annar staðar en hjá mér. Það var skrítið, sorglegt, erfitt, óþægilegt og allskonar. Það var lífsreynsla. Reynsla sem hefur áhrif á mig þaðan í frá og það sem eftir er. Yfirstíganlegt. Við giftum okkur. Dásamlegur dagur í alla staði. Við bjuggum til annað kraftaverk. Ótti og kvíði komu oft í heimsókn en það var líka yfirstíganlegt því allt var eins og það átti að vera hjá litla krílinu. Ég fékk að vita það oft. Alltaf þegar ég hafði áhyggjur eða óttaðist. Við fórum í matarboð. Við ferðuðumst. Vorum í fastri vinnu. Ég hafði allt sem ég þurfti þá og var nóg fyrir mig. Þetta ár leiddi mig samt áfram á nýja braut. Það leiddi mig að nýju fólki og nýjum tækifærum, sigrum og ósigrum, hæðum og lægðum. Það gerði mig umfram allt sterkari og meðvitaðri. Þakklátari.
Ég sýni ekki alltaf þakklæti mitt. Ég dvel ekki alltaf við jákvæðu hugsanir mínar. Ég eyði stundum of löngum tíma í neikvæðum hugsanagangi. Ég get verið ansi fastheldin. Það sem ég áttaði mig hins vegar á í gær á þessum stutta tíma eftir allar ósjálfráðu og sjálfráðu hugsanirnar er að ég er komin ansi langt í að hugsa um hugsunina mína. Af hverju líður mér eins og mér líður. Af hverju leyfi ég fólki eða einhverju í umhverfinu mínu að stjórna því hvernig mér líður. Það á enginn að ráða því nema ég. Ég stjórna því hvernig mér líður með því að velja hvernig ég hugsa. Ég stjórna hvaða hugsunum ég hleypi að og dvel við. Ég stjórna því hvað ég segi. Ég stjórna hins vegar ekki því hvernig aðrir túlka það sem ég segi. Hvernig aðrir taka því sem ég segi eða bregðast við. Ég geri ekki kröfur á mig að geta stjórnað því. Það getur það enginn. Ef ég á „slæman“ dag ekki láta mig skemma daginn þinn. Ég æfi mig að láta þig ekki skemma daginn minn. Þú skalt líka æfa þig að skemma ekki daginn þinn með neikvæðum hugsunum sem leiða þig hvergi. Hugsanir koma og hugsanir fara. Þegar þú dvelur við ákveðna hugsun skaltu velta fyrir þér hvers vegna hún kom og hvers vegna hún skiptir máli, hvernig hún lætur þér líða. Taktu eftir tilfinningunni og æfðu þig að meta hvort það sé þess virði að dvelja við eða láta hana hverfa út í tómið. Það kemur önnur hugsun. Æfingin er lykilatriði. Tækifærin til æfinga eru næg því hugsanirnar eru ótæmandi.

Ég vel að hugsa um hugsanir mínar sem blöðrur. Sumar vel ég að halda í og geyma hjá mér. Öðrum sleppi ég. Ég er að æfa mig að geyma aðeins þær sem skipta mig máli og skila mér árangri á einn eða annan hátt. Enn slæðist ein og ein „efins“ með. Eftir tímann í gær teiknaði ég blöðrurnar sem eru mikilvægar fyrir mig. Ég teiknaði líka það sem er sameiginlegt með þeim blöðrum sem stuðla að neikvæðum hugsanahætti hjá mér. Ég hvet þig til að skoða þínar eigin blöðrur. Hvaða blöðrur ertu með hjá þér núna? Eru einhverjar blöðrur sem þú heldur fast í en skila þér engu? Gætirðu skipt þeirri blöðru út fyrir jákvæðari blöðru? Æfðu þig.
„You can never have a positive life with a negative mind“ / Þú getur ekki átt jákvætt líf með neikvæðum huga.
*Í aerial jóga er notast við svokallaðar „slæður“ í æfingunum og í lokin er lagst í þær (líkt og verið sé að leggjast í hengirúm) og jógakennarinn leiðir nemendur í gegnum slökun.