Berglind Björk Guðnadóttir

Berglind Björk Guðnadóttir býr í Flóahreppi ásamt eiginmanni sínum Davíð Inga Baldurssyni frá Litla Ármóti en þau eru um þessar mundir að byggja á landi tengdaforeldra hennar er kallast Ármótsflöt. Saman eiga þau tvíburana Odd Olav og Auðunn Inga 14 ára og svo Guðna Bóas 10 ára. Aðrir heimilismenn eru hundurinn Kubbur og nokkrar hænur. Berglind starfar sem hjúkrunarfræðingur á Heilbrigðisstofnun Suðurlands og er einnig að ljúka burtfararprófi í klassískum söng nk. vor. Henni finnst best að vera í kringum fjölskyldu og vini, syngja, dansa, hlusta á góða tónlist, ferðast, elda og borða góðan mat.
Hvað var það fyrsta sem fékk þig til að brosa í dag?
Litlu hlutirnir en margt smátt gerir eitt stórt!
Sólin á heiðskýrum himni sem hefur verið í felum sl. 10 daga. Koss frá eiginmanninum þegar hann fór í vinnuna, Camilluteið mitt, Bach á fóninum og að hlakka til að fá systur mína í heimsókn í dag.
Hvenær gerðir þú síðast góðverk?
Úff, erfið spurning. Ég reyni held ég alla daga að gefa af mér á góðan hátt og hugsa það frekar þannig í stað þess að einbeita mér að verkinu sjálfu. Mér var alltaf kennt að koma vel fram við aðra og um það snýst líka vinnan mín. Umhyggjan og gagnrýna hugsunin sem maður veitir fólki alla daga. Að þeirra velferð skipti mig máli. Hugsa vel til annara, gefa bros, sýna skilning og samúð.
Nefndu þrennt sem gerir þitt daglega líf betra.
Fjölskyldan mín, góðir vinir og gott veður.
Hvar líður þér best?
Heima undir berum himni með skínandi sól, hlustandi á góða tónlist, eitthvað gott að drekka, eiginmanninn mér við hlið, börnin skoppandi úti að leika sér allt í kring með hundinn á eftir sér og hænurnar vappandi að tína sér æti.
Hvað fær þig alltaf til að hlæja?
Ég elska gott grín, er með svakalegann aulahúmor og hlæ alltaf að óförum annara. Mínir uppáhalds grínistar eru synir mínir, Jim Carrey, Mr. Bean, Edda Björgvins, Laddi, Robin Williams og Gunni og Felix.

Þessi mynd er mjög lýsandi fyrir daglegt fjör heimilisins!