top of page

Gerður Eðvarsdóttir


Gerður Eðvarsdóttir er búsett á Eyrarbakka og hefur búið þar í 2 ár. Hún elskar að búa í víðáttunni á suðurlandi, þar sem falleg fjöllin og jöklarnir umfaðma mann , skýin leika aldrei sama leikinn tvo daga í röð og sólin er alltaf einhversstaðar.

Að búa á Eyrarbakka er dásamlegt, þar er sjórinn á bæjarhlaðinu með öllum sínum fjölbreytileika, flóði og fjöru, brimi, flóru og fuglalífi.

Gerður er gift Gísla H. Halldórssyni og eiga þau þrjú uppkomin börn og sex barnabörn sem elska að koma til ömmu og afa á Eyrarbakka.

Hún er nýhætt að vinna hjá fyrirtækinu Snerpu á Ísafirði þar sem hún starfaði í rúm sex ár og þar af tvö ár í fjarvinnu frá suðurlandinu. Nú stefnir konan á að láta 40 ára gamlan draum rætast og hefja nám í garðykrjudeild Landbúnaðarháskólans, í Hveragerði. Hún er mjög spennt að snúa við blaðinu og takast á við nýjar áskoranir.

Hún segir að þegar maður rífur sig upp og flytur milli landshluta eftir áratugi sjái maður fullt af nýjum og spennandi tækifærum og eigi í raun erfitt með að velja og hafna en hún er einmitt líka að fara á námskeið í húsgagnasmíði í haust svo hún situr ekki auðum höndum.

Helstu áhugamál Gerðar eru fjölskyldan, útivera, hreyfing, náttúran og sköpun af ýmsu tagi.


Á myndinni er Gerður á leið upp á Lakagíga þar sem þau hjónin gengu upp á Laka og nutu stórfenglegrar náttúru.


Hvað var það fyrsta sem fékk þig til að brosa í dag?

Sólin sem skein inn um gluggann minn þegar ég vaknaði í morgun.

Hvenær gerðir þú síðast góðverk?

Í gær hringdi ég í móður mína sem er 83ja ára og tengdamóður mína sem er 85 ára, þær voru þakklátar fyrir það í þessu ástandi þegar fólk má ekki koma saman og mikil hætta er á að gamla fólkið einangrist.

Nefndu þrennt sem gerir þitt daglega líf betra.

Það sem gerir daginn minn betri er að fara út í náttúruna, hreyfa mig og skapa eitthvað.


Hvar líður þér best?

Heima er best!

Hvað fær þig alltaf til að hlæja?

Barnabörnin fá mann alltaf til að hlægja því þau eru svo einlæg og skemmtileg.

Á myndinni má sjá barnabörnin mín í okkar árlegu dvöl á Rauðasandi.

Recent Posts

See All
bottom of page