top of page

Hamingja fólks: 300 manns svöruðu hamingjukönnun þriggja vinkvenna í Vestmannaeyjum!


Guðbjörg Sól, Selma Rún og Tinna Mjöll eru bekkjarsystur sem útskrifuðust úr Grunnskóla Vestmannaeyja nú á dögunum. Lokaverkefni þeirra í skólanum var að kanna hvað gerir fólk hamingjusamt. Þær voru forvitnar um viðfangsefnið og töldu sig hafa gagn af þeirri þekkingu sem hlýst af því að vinna slíkt verkefni. Þær tóku sig til og settu upp vefsíðu þar sem má fræðast um hamingjuna og finna hlaðvarpsþátt þar sem þær ræða málefnið sín á milli.


Auk þess að lesa sér til um hamingjuna keyrðu þær út könnun sem hvorki meira né minna en 300 manns svöruðu. Í könnuninni var fólk beðið um að leggja mat á eigin hamingju og meðal annars spurt hvort það væri eitthvað sem væri ekki til staðar í sínu lífi sem gæti gert það hamingjusamara en það er nú þegar. Þær tóku saman svörin og mynduðu niðurstöður út frá aldurshópum.


,,Fjölskyldan, vinirnir, góð heilsa, vinna, hreyfing, útivist og ferðalög veita flestu miðaldra fólki hamingju. Sama fólkið segir að þau geti verið hamingjusamari en þau eru í dag en þá telja þau sig þurfa meiri pening, styttri vinnuviku, betri heilsu, meiri samskipti við fjölskylduna sína og einhleypa fólkið telur geta bætt hamingju sína að eignast góðan maka til að eyða stundum með.“

Félagsleg tengsl, þ.e. vinir, fjölskylda og maki eru samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar lykilþáttur í hamingju fólks en einnig kom skýrt fram að hreyfing og góð heilsa eru mikilvægur hlekkur í hamingjunni, óháð aldri. Athygli vekur að í aldurshópnum 10-40 ára kom matur einnig fram sem hvati til hamingju.

Í hlaðvarpinu svara þær sömu spurningum og velt var upp í rannsókninni og segja frá því sem gerir þær hamingjusamar og hvað gæti bætt þeirra hamingju. Samræðurnar eru djúpar og hjartnæmar en um leið slá þær á létta strengi. Það sem þær gátu allar sammælst um að myndi bæta líf þeirra væri minnkuð símanotkun og heitur pottur í garðinum. Ég held við getum flest verið sammála þeim í því.


Þeir sem vilja fræðast meira um hamingjuna og kynnast henni frá sjónarhorni sextán ára Vestmannaeyinga geta skoðað verkefnið á www.hamingjafolks.com


Hér er jafnframt hægt að hlusta á "podcast" stúlknanna þar sem þær fjalla um hamingjuna (ath bara hljóð, ekki mynd)

Recent Posts

See All
bottom of page