Hamingjusöm heimili

Fólki sem líður vel með heimilið sitt er líklegra til að líða vel í lífinu. Þetta staðfestir Good Home skýrslan en hún byggir á yfirgripsmikilli rannsókn sem var keyrð út frá september 2018 fram í febrúar 2019. Rannsóknin byggir á svörum 13.489 þátttakenda í tíu Evrópulöndum og 78 viðtölum ásamt könnun á samfélagsmiðlum þar sem myndir með myllumerkið #happyhome voru greindar. Niðurstöðurnar hjálpa okkur að skilja hvernig við metum heimili okkar og hvað við getum gert til að auka jákvæðar tilfinningar gagnvart þeim.
Fimm tilfinningar sem ráða því hvernig við metum heimili okkar
Óháð því hvar við búum, endurspegla heimili okkar ákveðnar tilfinningalegar þarfir. Við viljum vera örugg, frjáls, líða vel og upplifa heimilið sem hluta af okkur. Eftirfarandi tilfinningar eru ráðandi í því hvernig við metum heimili okkar.
Stolt
Fyrst og fremst viljum við geta verið stolt af heimilum okkar. Oftast upplifum við stolt út frá persónulegum afrekum, til dæmis þegar við gefum okkur tíma til að hreiðra um okkur, setja okkar mark á heimilið eða gera umbætur á því.
Þægindi
Ytri heiminum fylgir alls kyns áreiti svo það er eðlilegt að við viljum að heimilin okkar séu áhyggjulaus og afslappandi griðastaður.
Sjálfsmynd
Það skiptir máli að upplifa heimilið sem framlengingu af okkur sjálfum. Staður þar sem við getum tjáð persónuleika okkar opinskátt með litavali, húsgögnum eða skreytingum.
Öryggi
Við viljum öll finna til öryggis á heimilum okkar. Það á ekki aðeins við um utanaðkomandi ógnir heldur líka um gæði hússins. Við finnum til öryggis ef við vitum að þakið lekur ekki og burðarvirkið er sterkt.
Stjórn
Það hefur áhrif á tilfinningar okkar gagnvart heimilinu að hvaða marki við getum ráðið því sem fer þar fram. Það stjórnast meðal annars af því hvort við höfum fjármagn til viðhalds og breytinga eða hvort við leigjum eða eigum húsnæðið.
Er stórt einbýlishús lykillinn að hamingjunni?
Marga dreymir um að eiga sitt eigið einbýlishús á besta stað en mun það gera okkur hamingjusamari í raun? Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að við höfum oft ranghugmyndir um það hvað færir okkur raunverulega hamingju heima við.
Leigjendur geta verið jafn hamingjusamir og eigendur
Mörg okkar telja að við verðum hamingjusamari ef við eigum heimilið okkar sjálf. Rannsóknin sýnir hins vegar að fólk á leigumarkaði getur verið alveg jafn ánægt með heimili sín. Þá skiptir máli að leigusalinn veiti leigjandanum svigrúm til að gera breytingar og að leigjandinn geti treyst á húsnæðið til langs tíma.
Stærri heimili eru ekki alltaf betri
Önnur mýta sem rannsóknin hrekur er sú hugmynd að eftir því sem heimili eru stærri, því hamingjusamari séum við. Raunin er sú að stærðin skiptir litlu máli svo lengi sem við upplifum heimilið sem rúmgott og að rýmið geti aðlagast okkar lífi hverju sinni.
Það skiptir litlu hvort við búum í borg eða sveit
Niðurstöður sýna að það hefur lítil áhrif á hamingju okkar hvort við búum í borg eða sveit. Það sem skiptir meira máli er aðgengi að grænum svæðum, svo sem garði eða svölum. Við erum umtalsvert óhamingjusamari ef við höfum ekki aðgengi að slíkum svæðum.
Að keppast við nágrannan getur dregið úr hamingju
Lifnaðarhættir nágranna hafa áhrif á væntingar okkar til heimilisins og við erum líklegri til að vera ánægð með heimili okkar ef þau eru sambærileg heimilum nágrannanna. Fólk á leigumarkaði er til að mynda óánægðara ef flestir aðrir í nágrenninu eiga húsin sín. Aftur á móti er fólk á leigumarkaði líklegt til að vera hamingjusamt á svæðum þar sem leiguhúsnæði er ríkjandi.
Hvernig færi ég meiri hamingju inn á heimilið?
Heimilið er mikilvægur þáttur í vellíðan okkar og ef við erum ánægð með heimilið erum við líklegri til að vera hamingjusöm í lífinu. Lykillinn felst ekki í því að stækka við sig eða flytjast búferlum heldur getum stuðlað að aukinni hamingju og vellíðan með einföldum skrefum.
Endurraða til að skapa pláss
Sjálft flatarmál heimilisins skiptir litlu máli en plássleysi er sá þáttur sem hefur ein mestu áhrif á hamingju á heimilinu. Það getur því verið áhrifaríkt að endurraða og breyta svo það rýmki um okkur.
Gefa sér tíma í umbætur
Ef við gefum okkur tíma til viðhalds og umbóta á heimilinu getur hamingjan á heimilinu aukist umtalsvert, jafnvel fyrir þá sem ekki hafa gaman af viðhaldi. Þarfir okkar innan heimilisins eru í stöðugri þróun og við getum litið á tímann sem er varið í breytingar sem fjárfestingu í hamingjusamara heimili.
Opna heimilið fyrir gestum
Heimili okkar er hamingjusamlegra þegar við njótum þess með öðrum. Það eykur stolt og styrkir sjálfsmynd okkar að bjóða inn vinum og fjölskyldu. Stolt og sjálfsmynd eru tvær af mikilvægustu tilfinningum okkar gagnvart heimilinu.
Gróska og grænir fingur
Aðgengi að grænum svæðum hefur mikil áhrif á hamingju okkar, óháð því hvar við búum. Þar sem ekki er garður eða svalir geta pottaplöntur aukið hamingju okkar til muna.
Eitthvað persónulegt
Hvort sem við eigum húsnæðið eða leigjum, skiptir mestu að við tengjumst heimilinu sterkum böndum. Að leita leiða til að setja okkar persónulega mark á heimilið hjálpar okkur að skapa umhverfi þar sem við erum hamingjusöm.
Skýrslan í heild
Öll skýrslan er aðgengileg hér: Good home report. Þar er einnig fjallað um hvernig hönnuðir, leigusalar og skipulagsaðilar geta stuðlað að hamingjusamlegu heimilisumhverfi; hvernig ánægja með heimilið þróast á lífsleiðinni og hvernig niðurstöður skiptust á milli þátttökulanda.