top of page

Helga Jóhanna Úlfarsdóttir


Helga Jóhanna er ferðaþjónustubóndi, búsett á Skeiðum í uppsveitum Árnessýslu. Hún er gift og á tvö börn, 15 ára strák og 21 árs stelpu. Áhugamál Helgu eru tónlist, útivera og alls kyns hönnun.


Hvað var það fyrsta sem fékk þig til að brosa í dag?

Það eru svo mikil forréttindi að vera Íslendingur, að búa á þessu fallega landi. Það að búa svona nálægt náttúrunni gleður mig alla daga. Að vakna og horfa til himins, fylla lungun af fersku lofti dugar nú yfrleitt til að ná fyrsta brosi fram.

Hvenær gerðir þú síðast góðverk?

Ég reyni nú yfirleitt að gera góðverk á hverjum degi. Það eru þessir litlu hlutir eins og að brosa og gleðja aðra sem ég kalla góðverk dagsins. Annars reyni ég að vera liðleg við fólkið í kringum mig, hugsa vel um fólkið mitt og dekra manninn minn og börnin reglulega.

Nefndu þrennt sem gerir þitt daglega líf betra.

Það að vera hamingjusamlega gift og vera bálskotin í kallinum sínum gleður daglega, góð tónlist í eyrun og tala við vini og fjölskyldu daglega.


Hvar líður þér best?

Ég er einstaklega heimakær og líður best heima. Nema í dimmasta skammdeginu, þá myndi ég helst vilja búa á Spáni. Sólin nærir mig best.

Hvað fær þig alltaf til að hlæja?

Ég held reyndar að fullorðið fólk hlæi allt of sjaldan og þar er ég engin undantekning. Almennur fíflaskapur og léttúð, gamansögur af skemmtilegum uppákomum vina. Já eða bara fyndnar bíómyndir.

Hér er ég ásamt þremur góðum vinkonum eftir 15km göngu um Flóann fagra. Góðir vinir eru gulli betri!

Recent Posts

See All
bottom of page