top of page

Herdís Friðriksdóttir


Magnús Hlynur skoraði á Herdísi Friðriksdóttur sem næsta hamingjusama Sunnlending og að sjálfsögðu skoraðist hún ekki undan.


Herdís er fædd 12. September 1969 í Stykkishólmi og ólst upp á sunnanverðu Snæfellsnesi til 5 ára aldurs, þar sem foreldrar hennar stýrðu Laugargerðisskóla sem var heimavistarskóli á þeim tíma. Eftir stutta viðdvöl í Danmörku fluttist fjölskyldan til Hafnarfjarðar þar sem Herdís ólst upp og kláraði grunn- og framhaldskóla. Herdís stundaði háskólanám í skógfræði í Noregi og Danmörku og er auk þess með meistaragráðu í verkefnastjórnun frá HR. Hún á og rekur ferðaskrifstofuna Understand Iceland sem sérhæfir sig í fræðsluferðum fyrir nemendur á öllum aldri frá N-Ameríku. Nýverið útskrifaðist hún sem leiðsögumaður og nældi sér í meiraprófið. Herdís er gift Einari Ásgeiri Sæmunsen landslagsarkitekt og þjóðgarðsverði á Þingvöllum.


Árið 2007 tóku þau stóra ákvörðun og fluttu með dæturnar tvær Guðnýju Helgu (f. 2002) og Þórhildi Júlíu (f. 2004) að Reykholti í Biskupstungum. Þau höfðu áður búið í Reykjavík en hafa aldrei séð eftir því að flytjast út á land enda eru Uppsveitirnar einstaklega góður staður til að búa á. Áhugamálin snúa aðallega að ferðalögum ýmiskonar, en fjölskyldan hefur ferðast víða allt frá því að dæturnar voru litlar. Herdís hvetur alla til að ferðast sem mest með börnunum sínum en hún og Einar fóru með dæturnar til Nýja Sjálands þegar þær voru tveggja og hálfs og fjögurra ára. Þau dvöldu á Nýja Sjálandi í 2 ½ mánuð og það var algerlega ógleymanleg ferð með dýrmætum minningum. "Börnin eru börn í svo stuttan tíma og því mikilvægt að nýta hann" segir Herdís.

Hvað var það fyrsta sem fékk þig til að brosa í dag?

Sólin! Þegar sólin er farin að skína inn um svefnherbergisgluggann þá er ástæða til að brosa! Sumarið er minn tími og ég nýt þess í botn þegar ég þarf ekki lengur að bíða eftir því að vetrinum ljúki.


Hvenær gerðir þú síðast góðverk?

Ég held ég þurfi að taka mig á í góðverkunum og þarf að temja mér oftar að gera eitthvað fyrir aðra. En þegar ég fór út að plokka á laugardaginn fann ég barnahúfu sem var að koma undan snjónum. Ég fór með hana heim og þvoði hana og ætla með hana í grunnskólann þar sem eigandinn finnur hana vonandi áður en skólanum lýkur í vor.


Nefndu þrennt sem gerir þitt daglega líf betra.

Fjölskyldan mín klárlega. Þau eru öll skemmtileg og það er gaman að eyða tíma með þeim. Húsið mitt er alveg einstaklega rúmgott og vel skipulagt. Það er líka staðsett á frábærum stað en hérna er mikil gróður-og veðursæld og samfélagið allt jákvætt og uppbyggilegt. Svo verð ég að nefna allt góða grænmetið sem ég get keypt af bændum hérna í nágrenninu, brakandi ferskt allt árið um kring! Grænmeti gerir allt betra og það er hægt að halda í heilsuna og æskuna með því að borða bara nógu mikið af því!


Hvar líður þér best?

Mér finnst að ég ætti að segja „uppi á fjallstindi eftir krefjandi göngu“ en sannleikurinn er sá að mér líður langbest uppí sófa með teppi, góða bók, kött og rauðvínsglas. Mér finnst jafn mikilvægt að „slaka á eins“ og að „taka á“, og reyni að gera sem mest af því.


Hvað fær þig alltaf til að hlæja?

Undanfarið hef ég fengið mörg hlátursköst yfir fyndnum „jörmum“ (meme) og myndböndum sem fólk hefur verið duglegt að deila á samfélagsmiðlum. Það er greinilega endalaust hægt að grínast með þetta fordæmalausa ástand sem við erum stödd í akkúrat núna. Svo á eiginmaðurinn það oft til að segja fyndnar sögur sem fá alla til að hlægja.


Flettu myndunum sem þú tókst á símann þinn síðustu daga. Deildu með okkur myndina sem gleður þig mest.

Þessi mynd er tekin einum göngutúrnum sem við Sigrún Erna og Agla Þyrí nágrannakonur

mínar förum í daglega. Sigrún er mikill dýravinur og á fjöldann allan af dýrum, en Bassi hundurinn hennar og Flóki köttur fara iðulega með í gönguferðirnar.
Recent Posts

See All
bottom of page