top of page

Holly Keyser


Þetta er hún Holly Keyser. Hún er 38 átta ára ung(!) kona sem lýsir sér sem ,,heppnustu stelpu í heimi!“. Fædd og uppalin í litlu sveitaþorpi í Englandi en ferðaðist svo um heiminn og lenti í ýmsum ævintýrum samhliða því að hlaupa maraþonhlaup í hverju landi í nafni góðgerðamála! Þegar hún kom til Ástralíu ílengdist hún og bjó í Melbourne í heil sex ár. Hún fór svo í sumarfrí til Íslands og heillaðist svo af landinu að hún ákvað að gera það að heimili sínu. Hún byrjaði að vinna sem jöklaleiðsögumaður í Vatnajökulsþjóðgarði en flutti svo til Víkur þar sem hún hefur nú opnað einstaka kaffihúsið Skool Beans í gömlum Bandarískum skólabíl! Vík er fullkominn staður fyrir Holly, sem er alltaf á höttum eftir útivistartækifærum. Hér getur hún stundað fjallgöngur, hellaferðir og aðra afþreyingu í náttúrunni. Hún elskar auk þess hafið og hér nýtur hún góðs af nálægðinni við fjöruna.

Hvað var það fyrsta sem fékk þig til að brosa í dag?

Ég er fædd í Bretlandi svo það er félagsleg skylda mín að drekka eins mikið kaffi og mögulegt er! Fyrsta brosið mitt í dag var því þegar kærasti minn færði mér sjóðandi heitan bolla af Yorkshire tei.

Hvenær gerðir þú síðast góðverk?

Ég hef stundað Yoga síðustu 20 ár og þegar Covid skall á varð Víkurþorp afar tómlegt. Margir misstu vinnuna og sumir upplifðu augljósar afleiðingar streitu, eins og ótta við óvissuna og skort á rútínu. Ég ákvað að setja upp „Geðheilsumiðstöð“ fyrir nokkra vini mína. Ég bauð upp á Yoga þjálfun, við tókum okkur göngutúr eða fórum í bíltúra. Ætli síðasta góðverkið mitt hafi ekki verið í morgun, þegar ég bauð upp á yoga tíma. Ég geri það gjaldfrjálst vegna þess að ég nýt þess. Þau koma aftur og aftur svo ætli það þýði ekki að þau njóti þess líka!

Nefndu þrennt sem gerir þitt daglega líf betra.

Fyrsta svarið er augljóst! TE! Fyrir mér er te eins og faðmlag í bolla! Númer tvö er kærasti minn. Risi yfir 2m. á hæð sem gefur mér frelsi til að vera 100% eins og ég er, án þess að dæma mig. Það þriðja, og þetta kann að hljóma hippalegt, er Yoga. Það sleppir burt streitu og er gott fyrir líkama minn, ég finn að það hefur styrkt vöðvana mikið, en það sem er mikilvægast er að í Yoga gef ég mér tíma á milli dagsverka til að hlusta á sjálfa mig. Líkama og hug. Það er mikilvægt fyrir alla að hafa eitthvað í lífinu sem hefur þessi áhrif. (Ef ég má bæta við því fjórða, þá er það kötturinn minn. Hann er einstaklega ástlaus og fráhrindandi en hann gerir líf mitt samt betra þegar hann skýtur upp kollinum af og til yfir daginn.)

Hvar líður þér best?

Í fjallgöngu að taka allt inn: Áreynsluna, útsýnið og ánægjutilfinnunguna sem fylgir afrekinu.

Hvað fær þig alltaf til að hlæja?

Að láta mig dreyma um að Donald Trump gangi á ljósastaur í beinni sjónvarpsútsendingu. Ef það bregst, kemur Andy Samberg úr sjónvarpsþáttunum Brooklin Nine Nine! Hann er bara fyndinn gaur og ég held að við yrðum bestu vinir ef við myndum hittast!

Flettu myndunum sem þú tókst á símann þinn síðustu daga. Deildu með okkur myndinni sem gleður þig mest.

Mynd af mér og Jóhannesi! Hann er alveg búinn að taka ást mína á „matchy matchy“ í sátt (Matchy matchy er tískufyrirbrigði þar sem pör eða ganga í fötum í stíl) og þessi mynd minnir mig á hversu risavaxinn hann er!


Láttu mynd af þér á góðri stund fylgja með

Þessi mynd var tekin af mér í mars. Covid var á hápunkti og Geðheilbrigðishópurinn minn ákvað að fara í Reykjadal. Ég hafði ekki komið þangað áður svo það virtist góð hugmynd. Við ösluðum djúpan snjó í meira en klukkutíma og komumst loksins að ánni. Við böðuðum okkur í ánni í klukkutíma og vorum alein allan tímann. Bara ég og vinkonurnar. Við hlógum, dreyptum á heimagerðu víni og spjölluðum. Í fyrsta sinn í mörg ár gat ég hrist af mér óöryggi um líkamsímynd mína og samþykkti að láta taka af mér sundfatamynd. Það er svo kjánalegt hvað við getum haldið í vitlausar og röklausar tilfinningar um okkur sjálf; eitthvað sem skiptir í raun engu máli. Þetta var frábær dagur fyrir mér af svo mörgum ástæðum og þetta er bara ein af þeim. Elskið sjálf ykkur!
Recent Posts

See All
bottom of page