top of page

Hvar er hamingjan?Nú hefur hamingjulestin verið á ferðinni í nokkra mánuði og rétt að staldra við og velta upp spurningunni hvar er hamingjan?. Fram að þessu höfum við birt viðtöl við alls þrettán hamingjusama Sunnlendinga og spurt þá spjörunum úr. Eitt af því sem er áhugavert að læra er hvar þessu fólki líður best. Þegar svör þessara þrettán einstaklinga eru borin saman kemur skýrt þema í ljós og þrjú lykilatriði endurtaka sig mun oftar en önnur:


1) Heima

2) Úti í náttúrunni

3) Með fjölskyldu og vinum


Flestir tóku fram að þeim liði best þar sem tvö eða þrjú þessara atriða koma saman, til dæmis:

  • Úti í náttúrunni með fjölskyldu og vinum

  • Heima í faðmi fjölskyldunnar

  • Í garðinum heima, heima í sveitinni, heima undir berum himni

  • Í garðinum heima með fjölskyldu og vinum

Það vekur athygli að enginn viðmælenda tók sérstaklega fram að þeim liði best í fjarlægum löndum, í vinnunni eða við að stunda flókin eða kostnaðarsöm áhugamál.

Ef við viljum fylgja dæmi þessara hamingjusömu Sunnlendinga við að færa aukna hamingju í líf okkar er fyrsta skref að gera heimilið að notalegum griðastaðm staldra við til að njóta náttúrunnar í okkar nærumhverfi og fjölga gæðastundum með fólkinu sem okkur þykir vænst um.


Hér má lesa svör þrettán hamingjusamra Sunnlendinga, aðspurðir hvar þeim líður best:


Gunnar Páll Pálsson

Heima. Heimilið er minn griðastaður í nálægð við það sem mér þykir vænst og best. Þar innandyra uni ég mér sennilega best í eldhúsinu við matargerð hvort sem það er kjötfars, fiskur eða steik. Ef ekki þar þá úti í bílskúr að brasa við eitthvað. Þá er samveran lykilatriði alla dagana. Það er það eina sem hægt er að safna og tapa aldrei á því!


Berglind Björk Guðnadóttir

Heima undir berum himni með skínandi sól, hlustandi á góða tónlist, eitthvað gott að drekka, eiginmanninn mér við hlið, börnin skoppandi úti að leika sér allt í kring með hundinn á eftir sér og hænurnar vappandi að tína sér æti.

Thelma Dröfn Ásmundsdóttir

Heima í rólegheitummeð fjölskyldunni, mér finnst gaman að baka og fæ börnin mín og vini þeirra með í verkið. Svo eru það útilegurnar, þar nýt ég mín mjög vel og samveran með fjölskyldu og vinum fjarri daglegu amstri finnst mér alveg dásamleg.

Gerður Eðvarsdóttir

Heima er best!

Margrét Guðjónsdóttir

Með góðu fólki, í garðinum heima og á góðri göngu í náttúrunni

Margrét Jóna Ísólfsdóttir

Úti í náttúrunni og heima hjá mér. Er svo ótúrlega lánsöm að búa úti í sveit og er því umvafin náttúrunni.

Bæring J Breiðfjörð Guðmundsson

Uppáhalds staðirnir mínir eru eyjarnar við Breiðarfjörðin. Yndislegt að vera innan um fuglana á sumrin og njóta kyrrðarinnar. Dags daglega myndi ég segja að eldhúsið sé minn griðarstaðyr þar sem ég nýt þess að elda góðan mat fyrir fjölskyldu og vini.

Thelma María Marinósdóttir

Í sveitinni. Það er svo fallegt og friðsamlegt

Valgerður Knútsdóttir

Í grasagörðum innan um blómin

Ágústa G. Sigurbjörnsdóttir

Í eldhúsinu mínu. Þar finnst mér gaman að vera og að galdra fram allskonar framandi rétti og drykki.

Valgeir F. Backman

Á ferðalagi, heima eða í bústað, kósý hjá minni eiginkonu!

Herdís Friðriksdóttir

Mér finnst að ég ætti að segja „uppi á fjallstindi eftir krefjandi göngu“ en sannleikurinn er sá að mér líður langbest uppí sófa með teppi, góða bók, kött og rauðvínsglas. Mér finnst jafn mikilvægt að „slaka á eins“ og að „taka á“, og reyni að gera sem mest af því.

Magnús Hlynur Hreiðarsson

Einhversstaðar nálægt sveitabæ þar sem er nýbúið að bera skít á túnin, I love it, lyktin, maður minn. Þetta eru eflaust góðar minningar frá því að ég var í sveit í átta sumur á bæjunum Böðmóðsstöðum og Efsta Dal í Bláskógabyggð, þar elskaði ég (og geri enn) fjósalyktina og mykjulyktina (Já, ég veit, ég er skrýtin)

Meira efni:

Ef þú vilt leita leiða til að finna til aukinnar hamingju á þínu heimili þá má finna ýmis ráð í grein Hamingjulestarinnar um Hamingjusöm heimili. Þar er meðal annars fjallað um mikilvægi grænna svæða umhverfis heimlið sem liður í aukinni vellíðan heima við.

Samvera er mikilvægur liður í hamingju og vellíðan og skortur á mannlegum tengslum getur orsakað mikla vanlíðan. Verum dugleg að sýna fólkinu okkar stuðning, heimsækja, hringja og bjóða því að eiga með okkur samverustundir. Við vekjum athygli á vinaverkefnum Rauða krossins , þar sem þú getur boðið þig fram sem heimsóknarvinur eða símavinur og gert þitt til að styðja við einstaklinga sem finna til einmannaleika. Ef þú finnur til sjálf/ur til einmannaleika eða depurðar hvetjum við þig til að hafa samband í hjálparsíma Rauða krossins, 1717.


Recent Posts

See All
bottom of page