top of page

Segðu frá!

Pistill frá Sigurði Eyjólfi Sigurjónssyni 20 ára, hamingjuráðherra Mýrdalshrepps.

Þær eru margskonar glímurnar sem við mannfólkið fáum í lífinu, einhver okkar lenda á nokkuð torfærri leið, ég er einn af þeim. Vendipunkturinn í mínu lífi eru síðustu árin áður en ég datt á táningsaldurinn, þá glímdi ég við erfið veikindi sem ég að lokum sigraðist á, þrátt fyrir að hafa sigrast á veikindunum er ég enn að glíma við afleiðingarnar tæpum 10 árum síðar, já ég segi afleiðingar en mér finnst ég samt mega vera þakklátur fyrir ýmsa hluti í þeirri baráttu sem ég hef háð síðustu ár og hvað allt þetta ferli hefur kennt mér. Það byggðist upp mikill kvíði hjá mér þegar ég glímdi við fyrrnefnd veikindi, kvíðinn byggðist fyrst og fremst á þessum tíma á félagslega hlutanum vegna þess að á tímabili mætti ég sára lítið í skólann sem varð til þess að mér fannst ég einhvern veginn lenda á eftir í öllu, bæði í félagslífinu og í náminu, þetta var mikil brekka sem stækkaði bara næstu að minnsta kosti tvö árin.


Það sem spilaði einnig inn í var það hvað ég viðurkenndi seint fyrir sjálfum mér hvernig mér leið, ég skildi varla þetta orð kvíði og allt sem því fylgir. Það kom fyrir að maður skáldaði upp veikindi bara af því manni leið svo illa, það var ekki fyrr en ég opnaði mig algjörlega við mömmu mína um hvernig mér leið sem góðir hlutir fóru að gerast aftur, það má með sanni segja í þessu tilfelli að góðir hlutir gerast hægt.

Andlegum veikindum getur því miður fylgt ákveðinn skömm sem á samt engan rétt á sér, ég upplifði það sjálfur og þurfti minn tíma í að átta mig á því að þetta var alls ekkert sem ég þurfti að skammast mín fyrir.

Sumir veikjast líkamlega og sumir veikjast andlega, þannig virkar þetta bara, maður getur þurft að taka lyf við andlegum veikindum alveg eins og maður gerir við líkamlegum veikindum, það sem ég er að reyna segja er það að á þessum tíma upplifði ég það þannig að skilningurinn á andlegum veikindum væri ekki alltaf sá sami og á líkamlegum veikindum.

Ef ég held áfram að rýna í söguna mína þá var það árið 2015 sem fyrst fór að sjást almennilega til sólar að nýju, þá hafði ég verið í frekar dimmum dal í að verða tvö ár. Ég massaði 10. bekk veturinn 2015/16 og lífið var á uppleið, það var svo í maí mánuði árið 2016 sem ég opnaði mig á samfélagsmiðlum um baráttuna sem ég hafði verið í árin á undan, þarna fannst mér fyrsti stóri sigurinn unninn í baráttunni á stórum tímapunkti í lífinu, ég var að útskrifast úr grunnskóla. Þarna fann ég þessa tilfinningu, þarna fann ég má segja „lyfið“ í átt að lækningu, sem er að tala opinskátt um hlutina, enn var þó langt í land. Ástæðan fyrir því að ég sökk svo djúpt í þetta svarthol var sú að ég var að burðast með alla erfiðu hugsanirnar einn og svo lengi, eftir því sem maður birgir svona erfiðleika innra með sér lengur gerir maður bara illt verra, þess vegna er svo mikilvægt að vera tilbúinn að ræða hlutina, sama hvort það sé við fjölskylduna, sálfræðinginn eða vininn, allt hjálpar, það er allavega mín reynsla.


En áfram að sögunni, ég var á góðum stað á leiðinni inn í drauma sumar þar sem rúsínan í pylsuendanum var að ég var að flytja að heiman og fara í menntaskóla um miðjan ágúst mánuð, sjálfstraustið hafði ekki verið jafn gott í mörg ár. Í menntaskólanum lenti ég hins vegar á næsta vegg og hætti í skóla eftir aðeins nokkrar vikur, þetta var mikið áfall enda leið mér orðið þannig á tímabili árið 2016 að ég væri búinn að ná mér af þessum andlegu veikindum, þegar ég á við áfall þá meina ég áfall, ég var ekki ég sjálfur í að minnsta kosti hálft ár á eftir þetta. Ég skammaðist mín fyrst um sinn fyrir að vera ekki eins og hinir unglingarnir á mínum aldri, í skóla, en þetta eins og margt annað er ekkert til þess að skammast sín fyrir.

En ég vissi hins vegar hvað gæti mögulega hjálpað mér svo ég gerði eitthvað sem ég skil ekki enn þann dag í dag að ég gat gert á þessum tímapunkti, ég mætti í minn gamla grunnskóla og hélt stuttan fyrirlestur um kvíða og því sem fylgir því að glíma við andleg veikindi, fyrir nemendur á unglingastigi. Þar ítrekaði ég það hversu mikilvægt væri að tala um sinn andlega líðan, fyrirlesturinn bar heitið ,,Segðu frá“.

Afhverju minnist ég á þetta hér, jú því þetta er einmitt hluti af bataferlinu, að segja frá þegar manni líður illa, við getum farið misjafnar leiðir að því en ég ákvað að prófa fara þessa leið og miðla á sama tíma reynslu minni til annara.


Þarna erum við á árinu 2016, á næstu árum tók við uppbygging og hluti af henni var að vera ófeiminn við að ræða sína andlegu líðan, ég fór út á vinnumarkaðinn og skapaði mér gott orð sem hefur orðið til þess að mér hafa verið veitt ótal tækifæri sem ég er þakklátur fyrir þrátt fyrir að hafa ekki mikla menntun, það hafa vissulega nokkrar lægðir gengið yfir á allra síðustu árum en ég er í raun bara þakklátur fyrir það, ég hef lært svo ótal margt út frá erfiðleikunum og alltaf finnst mér ég hafa komið út úr erfiðleikunum sem sigurvegari, þannig lít ég á það.

Nú fjórum árum síðar og tæpum 10 árum frá fyrrnefndum vendipunkti er ég á mínum besta stað í lífinu, ég er því að einhverju leyti þakklátur fyrir að hafa þurft að fara torfæru leiðina í lífinu, það hefur kennt mér svo ótal margt.


Skilaboð mín eru þessi:

Erfiðleikarnir móta þig sem persónu, erfiðleikarnir hafa í mínu tilfelli búið til auðmjúkan og einlægan strák sem er ófeiminn við að tala um lífið og tilveruna ásamt því tek ég lífinu ekki sem sjálfsögðum hlut, ég er þakklátur. Þó þér mistakist einu sinni færðu annað tækifæri, við þetta get ég t.d tengt námssögu mína í átt að stúdentsprófinu sem ég var í svartnættinu búinn að útiloka að væri möguleiki en nokkrum árum seinna er ég kominn á flug í náminu og horfi með bjartsýni til framtíðar, það er einfaldlega allt hægt ef trúin og viljinn er fyrir hendi. Ég kom fram, sagði frá því hvernig mér leið, það var ekki fyrr en þá sem hjólin fóru að snúast að nýju, ég horfðist í augu við kvíðann og einbeitti mér að því að gera hluti sem mér fannst óþægilegir, ég fór út fyrir þægindarammann og vann mér þannig inn aukið sjálfstraust. Ég sleppti skömminni sem átti aldrei neinn rétt á sér og stóð að lokum uppi sem sigurvegari, þannig lít ég á það. Já þetta hljómar kannski frekar einfalt en svona var þetta í stuttu máli, þetta er alls ekki einfalt en þetta er hægt og það er það sem skiptir máli. Leiðin í átt að góðum bata getur verið löng og ströng, en hún gerir þig á sama tíma að enn þá betri og sterkari manneskju.

Að lokum segi ég: Ekki loka þig af og tala ekki um erfiðleikana og þær erfiðu hugsanir sem þeim fylgir, ef þú ferð þá leið mun þér ekki líða betur, deildu hugsunum þínum með öðrum og með því stefnir þú í rétta átt, SEGÐU FRÁ!

Recent Posts

See All
bottom of page